Sunday, January 26, 2014

64. KR - LIVERPOOL 1964

Lið KR varð Íslandsmeistari í knattspyrnu sumar 1963 og í kjölfarið varð tekin sú ákvörðun hjá félaginu að liðið tæki þátt í Evrópukeppni meistaraliða haustið eftir - fyrst íslenskra liða. Næsta haust eru því 50 ár liðin.

Nokkur eftirvænting ríkti hjá KR-ingum um þessa frumraun Íslendinga á Evrópumótum og mikil spenna myndaðist um væntanlega mótherja í keppninni. 31 lið höfðu tilkynnt þátttöku og helstu óskir KR snerust um það að þurfa ekki að ferðast til austantjalds landanna. Til landsins bárust á móti þær fréttir að dönsku meistararnir í B1909 óskuðu helst eftir að mæta KR, þar sem þeir töldu sig eiga bestu möguleikana gegn þeim andstæðingum, en auk þess væri ferðalag til Íslands ævintýri líkast.
 
 
Þann 8. júlí árið 1964 var síðan dregið í 1. umferð og upp úr hattinum drógust ensku meistarnir í Liverpool. Íslenskir áhugamenn um ensku knattspyrnuna urðu himinlifandi yfir þessum happadrætti og fljótlega var samið um að fyrri leikur liðanna færi fram í Reykjavik en sá síðari í Liverpool. Reyndar kom Liverpool fyrr upp úr hattinum og hefði því átt að eiga sinn heimaleik á undan en enska liðið samþykkti að skipta leikdögunum vegna hinna séríslensku aðstæðna hér á haustin. Liverpool var einnig að hefja sína fyrstu þátttöku á Evrópumótunum og á Bretlandseyjum ríkti nokkur bjartsýni um auðvelda frumraun liðsins.


Í Sunday Mirror birtist létt grein eftir blaðamanninn Sam Leitch um hina íslensku andstæðinga Liverpool og þar sagði hann meðal annars; "Hinir gamansömu knattspyrnuáhugamenn í Liverpool ímynda sér vafalaust að meistarar þeirra í ensku deildarkeppninni hafi annað hvort hreppt, að mótherjum í 1. umferð Evrópubikarkeppninnar, búnt af skinnklæddum eskimóum eða skipsfarm af víkingum í ránsferð." Leitch sagði að sér hefði verið greint frá því að stjarna liðsins héti Ellert Scram og að sá hefði sagt; "Ég veit allt um Liverpool og Bill Shankly en ég veit að þeir vita ekkert um okkur." Leitch sagði einnig að hann hefði verið spurður frá Íslandi hvort hann reiknaði með að einhverjir áhorfendur kæmu á Anfield til að sjá Íslendingana og hann svaraði; "Þið gætuð sent hingað 11 seli og samt yrði uppselt á Mersey bökkum."

Breskir fjölmiðlar sýndu leikjum KR og Liverpool mikinn áhuga og stuttu fyrir leikinn í Reykjavík komu hingað sjónvarpstökulið frá BBC og tóku upp efni fyrir þáttinn Tonight Show. Í þættinum voru viðtöl við nokkra leikmenn og forráðmenn KR og sýndar myndir frá leikskipulagsfundum og æfingum liðsins.

Þess má líka geta að þegar Liverpool liðið kom til landsins tóku flugmenn Loftleiðavélarinnar Skýfaxa heilmikið útsýnisflug yfir Surtsey, sem enn gaus með miklum látum, og leikmenn liðsins áttu ekki orð yfir þeim ósköpum sem þar fóru fram.


Íslenskir blaðamenn króuðu ensku atvinnumennina af við komuna til landsins og spurðu þá spjörunum úr. Þeir voru meðal annars spurðir um líf sitt sem atvinnumanna og ólíkt því sem gerist í dag þá voru leikmennirnir ófeimnir við að ræða launamál sín. Þeir væru afar ánægðir með kjör sín hjá félaginu og upplýstu viðstadda um að árstekjur þeirra næmu um 3000 pundum. Í mánaðarlaun gera það líklega um rúmlega 48.000 íslenskar krónur!


Leikurinn sjálfur fór fram á Laugardalsvellinum, mánudagskvöldið 17. ágúst og þrátt fyrir svolítinn norðan hroll létu rúmlega 10.000 áhorfendur sjá sig á vellinum.


Fljótlega eftir að leikurinn hófst varð ljóst að hann myndi þróast eins og flestir höfðu reiknað með. Liverpool liðið tók strax öll völd á vellinum og það voru ekki nema tvær mínútur liðnar af leiknum þegar Gordon Wallace skoraði fyrsta markið.


Og þetta fyrsta mark má einnig sjá á þessari mynd hér fyrir neðan.

 
Lítið meira gerðist reyndar í þessum fyrri hálfleik nema það að Liverpool var nánast alveg með boltann fyrsta hálftímann og KR-ingarnir voru hlaupandi á eftir þeim í endalausum eltingarleik. Staðan var því aðeins 0-1 þegar norski dómarinn flautaði til tepásu og íslenskir áhorfendur voru skiljanlega alveg himinlifandi með stöðuna í leikhléi.

Seinni hálfleikurinn var öllu fjörugri og líkt og í byrjun leiks liðu ekki nema tvær mínútur áður en enska liðið var búið að bæta við marki. Þar var að verki Roger Hunt sem skoraði af stuttu færi.


Stuttu seinna fengu KR-ingar sitt besta færi í leiknum þegar Ellert Schram átti skalla eitthvað í áttina að markinu eftir hornspyrnu en Ronnie Moran, sem löngu seinna tók að sér forfallaframkvæmdastjórnun hjá liðinu, skallaði boltann frá. Stórfengleg tilþrif eins og sjá má.


Ekki leið langur tími þar til Liverpool skoraði þriðja markið og þar var að verki Phil Chisnall en í dagblöðum eftir leikinn var þess getið að markið hefði komið eftir hroðalega varnarvinnu heimamanna. Eftir þetta gerði KR lítið annað en að reyna að verjast eftir bestu getu en það var reyndar það sama og þeir voru búnir að vera að gera allan leikinn fram að þessu. Þeir Wallace og Hunt skoruðu báðir aftur og leikurinn endaði því með 0-5 sigri ensku meistaranna.


Eftir leikinn ætlaði markvörður Liverpool að kenna framherjum KR um ef hann fengi kvef og Bill Shankly hrósaði KR sérstaklega fyrir drengilegan leik, góðan aðbúnað og völl. Seinna um kvöldið mættu bæði liðin síðan á Naustið til að njóta næringaríkrar máltíðar eftir leikinn. Þar rétt náðu leikmenn Liverpool að slafra í sig súpuskál í forrétt áður en Shankly rak allt lið sitt í rúmið upp á hótel. KR liðið naut því afgangsins af matnum án gestanna en í staðinn skemmti línuvörðurinn Borgesen hópnum með norskum dægurlagasöng og lék undir á píanó. Dómarinn Johan Riseth var hins vegar hinn fúlasti og sagði að leikurinn hefði verið leiðinlegur.


Seinni leikur liðanna fór svo fram á heimavelli Liverpool, Anfield Road, mánudaginn 14. september og þar litu svipuð úrslit dagsins ljós. Heimamönnum hafði gengið fremur brösuglega í byrjun tímabilsins á Englandi þetta haust en samt létu rúmlega 32.596 áhorfendur sig hafa það að mæta á völlinn, til að sjá íslensku harðfiskana spila fótbolta. Þulur vallarins bauð íslenska liðið velkomið á Anfield og svo tóku breskir loðbítlar við að kyrja God save the Queen í flóðljósunum en það voru aðstæður sem enginn leikmaður KR hafði áður kynnst.


Liverpool liðið hóf fljótlega mikla skothríð á mark KR en Heimir Guðjónsson markvörður varði nokkrum sinnum meistaralega strax á upphafsmínútum leiksins auk þess sem varnarmenn hans björguðu líka a.m.k. tvisvar sinnum á marklínunni. Á 14. mínútu skoraði hins vegar bakvörðurinn Gerry Byrne og stuttu seinna bætti Ian St. John öðru marki við.


Yfirburðir heimamanna voru skelfilegir og það kom því áhorfendum í opna skjöldu þegar Gunnar Felixson tók upp á því, algjörlega gegn gangi leiksins, að skora fyrir KR á 36. mínútu. Liverpool 2 - KR 1 og þannig stóðu leikar í hálfleik. Sko, það er meira að segja til mynd af því!

 
Síðari hálfleikurinn spilaðist á svipaðan hátt og sá fyrri og leikurinn fór nánast allur fram á vallarhelmingi gestanna þar sem KR-ingar röðuðu sér upp við vítateiginn. Það kom ekki í veg fyrir að Liverpool skoraði fjögur mörk á rúmlega tuttugu mínútum og leikurinn endaði með 6-1 sigri heimamanna.


Í leikslok klöppuðu áhorfendur lengi fyrir áhugamönnunum frá Íslandi og leikmenn Liverpool létu það eftir sér að standa heiðursvörð fyrir KR-ingum og klappa fyrir þeim er þeir gengu af velli. "Reykjavík, Reykjavík, Reykjavík..." ómaði um völlinn á meðan.


Leikmenn KR voru himinlifandi með allar móttökur og alveg sérstaklega þær vinsældir og athygli sem eiginkonur þeirra hlutu. Þær flugu út með liðinu til Liverpool en nokkrir stuðningsmenn fylltu svo upp í þau sæti sem 80 manna leiguvélin bauð upp á. Ljósmyndarar kepptust við að birta myndir af eiginkonunum í blöðunum og lesendur þeirra voru greinilega ánægðir með þessa fegurðaauknu tilbreytingu. Útlit bresks kvenfólks hafði líklega ekki verið að selja blöðin þeirra fram að þessu og íslenskir fjölmiðlar vöktu auðvitað athygli á mikilvægri landkynningu.

Bæði fyrir og eftir leikinn vöktu leikmenn KR athygli hvar sem þeir fóru. Þeim var til að mynda boðið í virðulega heimsókn til borgarstjóra Liverpool og strax eftir leikinn voru þeir króaðir af og beðnir um eiginhandaráritanir.


Fræg saga er til af þeim KR-ingum úr þessari ferð en henni er gerð góð skil í bókinni "Hverjir eru bestir?" eftir þá Guðjón Inga Eiríksson og Jón Hjaltason. Best að grípa aðeins í hana svona í lok þessarar færslu.

Þegar KR-ingarnir voru í Liverpool gistu þeir á sama hóteli, og reyndar á sömu hæð, og stórhljómsveitin Rolling Stones. Fylgdi hljómsveitinni mikill skari áhorfenda sem hafðist við fyrir utan hótelið í þeirri von að berja goðin augum.
Það var einmitt þá sem einum KR-ingnum, Heimi markverði Guðjónssyni, datt í hug að leika eilítið á þessa æstu aðdáendur. Brá hann fingrum í gegnum hár sitt, labbaði því næst vel úfinn út á svalir og rak upp þetta feikna öskur. Trylltist þá lýðurinn fyrir neðan svo um munaði, enda var í fyrstu talið að þarna væri enginn annar en Mick Jagger, aðalmaðurinn í Rolling Stones, á ferð. Á hæla Heimis kom hins vegar Bjarni nokkur Felixson, lítt stórhljómsveitarlegur á að líta, og sló þá algjörri þögn á mannskapinn, en síðan heyrðist frá einni stúlkunni:
"Oj, It's the footballers!"

No comments:

Post a Comment